Saga skólans

Leikskólinn Bolli var stofnaður árið 1990. Þá hafði fræðsluráð Langaskersbyggðar ákveðið að hleypa af stokkunum tilraunastarfi í leikskólamálum þar sem stuðst væri við hugmyndafræði þá sem kennd er við bæinn Reggio Emilia á Ítalíu. Auðbjörg hafði kynnt sér starfið í hinum ítölsku leikskólum og kom aftur til Íslands með fullt af spennandi hugmyndum sem hana langaði að prófa í starfinu hér á landi.

Hafist var handa við byggingu skólans árið 1988 en nokkrar tafir urðu á framkvæmdum þannig að skólinn var tekinn í notkun að hluta árið 1990 en ári síðar var skólinn fullbúinn 5 deilda leikskóli. Þá var slegið upp mikilli veislu og öllum bæjarbúum boðið að koma að skoða nýja skólann. Nemendur fóru ekki varhluta af gleðinni. Foreldrum var boðið sérstaklega að koma í heimsókn á deildirnar og sáu börnin um veisluborðið.

Um leið og byggingu var lokið fékk skólinn aðgang að frábærum íþróttasal sem hefur verið notaður til þess að styrkja nemendurna því það er ekki vanþörf á því nú á tímum tölvuleikja og hreyfingarleysis. Skólinn fékk styrk til að þróa aðferðir við íþróttakennslu leikskólabarna.

Einnig hefur raunvísindum verið gert hátt undir höfði og hafa þær Guðrún Hermannsdóttir hópstjóri á Lóudeild og Gyða Sveinsdóttir á Álfadeild verið leiðandi í því starfi. Skólinn hefur fengið nema frá raunvísindadeild Háskóla Íslands í heimsókn til þess að glæða starfið með nýjum og spennandi tilraunaverkefnum.

Húsnæði skólans hefur frá upphafi boðið upp á mjög spennandi tækifæri til tilrauna- og þróunarstarfs. Sérstök stofa var innréttuð sem afdrep fyrir foreldra og börn sem eru í aðlögun að starfinu í leikskólanum. Þar geta foreldrarnir farið með börnin sín þegar tíminn inni á deild er orðinn of langur en þó haldið áfram þeirri aðlögun að leikskólanum sem er nauðsynleg fyrstu vikurnar og mánuðina. Það hefur verið stefna skólans að hafa aðlögun almennt ekki lengri en til tveggja mánaða. Eftir það teljum við að barnið sé tilbúið að koma eitt og óstutt inn í starfið á deildunum. Það er þó auðvitað háð þörfum hvers barns og eru dæmi um sex mánaða aðlögun í einhverjum tilfellum.

Húsnæði skólans er mjög fjölbreytt og hentar því þörfum flestra barna. Mikið er lagt upp úr fjölbreytileika í umhverfi eins og í starfinu. Hér sést eitt horn matsalarins.

Og hér er ein af deildum skólans. Þetta er leikstofan á Seladeild en við erum nýbúin að kaupa ný húsgögn fyrir deildina og erum að prófa hvernig þau reynast í starfinu.

© 2016 - 2018 Karellen